Anders Aukland tekur þátt 2025

Norski skíðagöngumaðurinn Anders Aukland hefur boðað komu sína í Fossavatnsgönguna í apríl næstkomandi. 

Aukland á stórglæsilegan feril að baki, en hann var m.a. í boðgöngusveit Norðmanna sem vann gull á Ólympíuleikunum árið 2002 og heimsmeistaramótinu 2003. Hann komst þrettán sinnum á verðlaunapall á heimsbikarmótum og hefur sigrað í þremur nafntoguðustu skíðagöngumótum heims, Vasagöngunni, Birkibeinagöngunni og Marcialonga.  Þá hefur hann tvisvar sinnum sigrað í stigakeppni Ski Classics mótaraðarinnar.  Aukland er að auki fantagóður hlaupari og á Noregsmeistaratitla í 5000 og 10000 metra hlaupum, sem og í víðavangshlaupi.

Anders Aukland er tvímælalaust einn af þeim mönnum sem hafa haft hvað mest áhrif á þróun skíðagönguíþróttarinnar síðustu árin og áratugina.  Hann var, ásamt bróður sínum Jörgen og fleiri köppum, í hópi þeirra sem leiddu hina gríðarlegu þróun á tvöföldu staftaki (sem innvígðir vita hvað er, en aðrir sennilega ekki), sem hefur orðið til þess að breyta landslaginu í skíðagöngu umtalsvert. Hann var líka einn af lykilmönnunum í stofnun Ski Classics mótaraðarinnar, sem nú nýtur mikilla vinsælda um allan heim.

Þótt Anders Aukland sé skriðinn yfir fimmtugt er hann enn mjög virkur og öflugur skíðagöngumaður, auk þess sem hann heldur úti vinsælu hlaðvarpi um skíðagöngu á netmiðlum norska ríkisútvarpsins, NRK. Það er mikill fengur fyrir íslenska skíðagöngusamfélagið að fá svona mann í heimsókn og við hlökkum til að taka á móti honum í blíðunni á Seljalandsdal.

is_IS