Það hefur vorað ansi hratt í Skutulsfirðinum síðustu daga og næstu daga mun hlána frekar. Aðfaranótt laugardags mun þó frysta og er gert ráð fyrir dýrðarinnar veðri á laugardag.
Brautarstjórar hafa ráðið ráðum sínum og staðan á göngusvæðinu er þannig að ekki verður hægt að troða 50 km hringinn, heldur verða gengnir tveir 25 km hringir. Þeir verða að mestu leyti svipaðir og síðustu ár en taka smávægilegum breytingum eftir því hvernig snjór hefur sest í lægðir og á holt. Orka troðarakarlanna verður sett í að tryggja að mark- og startsvæðið á Seljalandsdal verði með nóg af snjó.
Næstu daga verða brautir ekki troðnar fyrr en í tengslum við Næturfossavatnið á miðvikudaginn. Þær brautir sem eru á svæðinu nú þegar halda sér ágætlega og er auðrataðar. Þau sem verða mætt tímanlega geta því tekið út svæðið dagana fyrir göngu. Skíðasvæði Ísafjarðarbæjar setur inn fréttir reglulega af troðslu.
Til viðbótar við veðurupplýsingar sem allir kunna að finna, minnum við á veðurstöðvar sem Fossavatnsgangan rekur á völdum stöðum. Þær má sjá neðst á Fossavatn.is. Áburðarráð verða gefin út á föstudag þegar veður liggur betur fyrir.
Við hlökkum til!
Við reynum að halda ykkur upplýstum á Facebook og Instagram.