Saga Fossavatnsgöngunnar

Fossavatnsgangan er elsta skíðamót sem enn er við lýði á Íslandi, en gangan fór fyrst fram árið 1935. Gangan fer jafnan fram um mánaðamótin apríl/maí og markar lok skíðavertíðarinnar hér á landi. Lengst af var aðeins ein vegalengd á dagskrá Fossavatnsgöngunnar, u.þ.b. 20 km leið frá Vatnahnjúk í nágrenni Fossavatns yfir á Seljalandsdal. Árið 1987 bættist 10 km vegalengdin við og tveimur árum síðar var einnig farið að bjóða upp á 7 km leið sem er mjög létt og hentar vel allri fjölskyldunni. Árið 2004 var svo enn bætt við vegalengdirnar þegar tekin var upp keppi í 50 km göngu.

Fyrsta Fossavatnsgangan fór fram á annan páskadag árið 1935. Keppendur voru 7 talsins og var brautin mæld 18 km. Sigurvegari varð Magnús Kristjánsson úr Skátafélaginu Einherjum á tímanum 1 klst. og 50 mínútum, annar varð Sigurjón Halldórsson úr Herði á 1:53 klst. og þriðji Sig.Baldvinsson úr Einherjum á 1:54 klst.

Á fimmta og sjötta áratugnum féll Fossavatnsgangan 14 sinnum niður, en frá árinu 1955 hefur hún farið fram á hverju ári. Sigursælasti keppandi í sögu Fossavatnsgöngunnar er Kristján Rafn Guðmundsson frá Ísafirði, sem 12 sinnum kom fyrstur í mark á sjöunda og áttunda áratugnum. Sá sem oftast hefur tekið þátt er hins vegar Sigurður Jónsson (Búbbi prentari) en hann keppti í þriðju göngunni, árið 1938, og hefur verið með í flestum Fossavatnsgöngum síðan.

Skíðafréttir 1961

Eftir að 50 km vegalengdin var tekin upp í Fossavatnsgöngunni hefur mótið vakið sífellt meiri athygli erlendis. Árið 2005 var gangan tekin inn á mótaskrá Alþjóða skíðasambandsins, FIS, og sama ár varð hún stofnaðili að norrænni mótaröð, FIS Nordic Ski Marathon Cup. Þar er um að ræða samstarf á milli Fossavatnsgöngunnar, Holmenkollen Skimaraton í Noregi, Tornedalsloppet í Svíþjóð og Oulun Tervahiito í Finnlandi. Allt hefur þetta orðið til þess að þátttaka í göngunni hefur farið vaxandi frá ári til árs og hefur fjölgunin verið bæði í hópi innlends og erlends skíðafólks. Margir heimsþekktir skíðamenn hafa lagt leið sína til Ísafjarðar til að ganga Fossavatnsgönguna. Fyrstur í þeirri röð var Paul Gunnar Mikkelsplass frá Noregi, sem kom hingað á hátindi frægðar sinnr árið 1985. Síðastliðin ár hefur svo bæst mjög í þennan hóp og má þar nefna kempur á borð við Thomas Alsgaard, Hilde G. Pedersen, Suzanne Nyström, Oskar Svärd og Petter Northug.

Gangan hefur verið fulltrúi vestanverðs landsins og vetraríþrótta í Landvættum frá stofnun þess félags árið 2013. Þá hefur skíðagönguíþróttin verið á mikilli uppleið á síðustu árum í tengslum við vinsæl skíðagöngunámskeið á Ísafirði og víðar um land.

Fossavatnsgangan var örlagavaldur í lífi nýjasta ólympíufara Ísfirðinga, Snorra Einarssonar, en hann kom til að taka þátt í göngunni árið 2017 og festi rætur í bænum.