Viðtal við Worldloppet-reynsluboltann Grant McLeod.
Skíðaganga hefur verið mikilvægur hluti af lífi Kanadamannsins Grant McLeod um áratugaskeið. Hann steig fyrst á skíði í byrjun áttunda áratugarins og eftir það varð ekki aftur snúið, hann tók að sér skíðakennslu, þjálfaði félagslið í heimabæ sínum og hóf þátttöku í lengri göngum.
Árið 1985 heyrði Grant fyrst af Worldloppet og keypti sér passa, en á þeim tíma var serían 10 göngur. „Ég ætlaði að klára þessar 10 göngur en eins og gengur og gerist setti amstur daglegs lífs strik í reikninginn,“ segir Grant. Það var ekki fyrr en árið 2004 sem hann tók upp þráðinn og síðan þá hefur hann forgangsraðað því að klára eins margar göngur og hægt er.
Það var einmitt í Worldloppet-göngu, árið 2007 eða 2008, sem Grant rakst á ísfirsku skíðagöngumennina Bobba, Einar og Gunnar sem sögðu honum frá Fossavatnsgöngunni. „Þegar gangan varð hluti af Worldloppet sá ég kjörið tækifæri til að takast á við eina áskorun í viðbót og heimsækja í leiðinni Ísland í fyrsta sinn.“
Grant þreytti frumraun sína í Fossavatnsgöngunni árið 2015, ásamt nokkrum öðrum kanadískum skíðagöngumönnum. Við vorum í viku á Ísafirði og tókum aðra viku í að ferðast um Ísland, sem var bæði stórkostleg og einstök upplifun.“
Síðan 2015 hefur Grant reglulega tekið þátt í Fossavatnsgöngunni og verður gangan í ár sú sjötta. Hann segir að það sé ekki bara keppnin sem fái hann til að koma til Ísafjarðar ár eftir ár, heldur spili félagslegi þátturinn stórt hlutverk. „Mér finnst bæði gaman að skíða í þessu umhverfi en einnig að kynnast öðru skíðagöngufólki frá öllum heimshornum, jafnvel deila gistiplássi með því. Í ár gisti ég með fólki frá Ástralíu og Tékklandi og þessi hluti Worldloppet finnst mér sérstaklega skemmtilegur.“
Aðspurður um bestu minninguna frá fyrri göngum segir Grant tvær minningar strax koma upp í hugann. Sú fyrri er frá fyrstu göngunni árið 2015 þegar gengnar voru tvær 25 km lykkjur í blindhríð. „Það var mjög erfitt að ganga í þessum aðstæðum og sporið hvarf mjög fljótt í skafrenningnum, en sem betur fer fór enginn af leið.“ Hin minningin sem stendur upp úr er frá næstu göngu sem Grant mætti í, árið 2018, sem var algjör andstæða þeirrar fyrstu. „Þá var heiðskírt, glaðasólskin og fallegasta braut sem ég hef nokkurn tíma skíðað í.“
Grant segir það ekki alltaf auðvelt að undirbúa sig fyrir Fossavatnsgönguna. „Á þessum árstíma er vorið komið í Kanada og enginn snjór þar sem ég bý. Ég stunda því aðra hreyfingu eins og hjólreiðar og hlaup til að halda mér í formi.“
Fossavatnsgangan hefur sannarlega haft djúpstæð áhrif á Grant enda hefur hann öðlast dýrmæta reynslu í fyrri göngum og eignast vini um allan heim. „Ég lít á Fossavatnsgönguna sem hápunkt skíðatímabilsins ár hvert og vonast til að geta haldið áfram að mæta.“