Kitti Muggs, minning

Kristján Rafn Guðmundsson, Kitti Muggs, verður borinn til grafar í dag, föstudag 19. apríl. Hann var skíðamaður af hinni miklu skíðaætt af Grænagarði og steig fyrst á skíði fjögurra ára gamall. Eftir það varð ekki aftur snúið. Keppni, æfingar og ýmislegt skíðastúss var stór hluti af lífi hans alla tíð síðan.

Kitti átti glæstan feril sem afreksmaður í skíðagöngu. Hann vann Íslandsmeistaratitla og keppti oft erlendis, meðal annars eitthvað um tuttugu sinnum í frægasta skíðagöngumóti heims, Vasagöngunni í Svíþjóð. Hann þótti harður í horn að taka sem keppnismaður en var jafnframt hlýr og glaðsinna og alveg sérlega fús til að rétta yngra skíðafólki hjálparhönd. Eftir að keppnisferlinum var að mestu lokið fór Kitti ótal ferðir sem fararstjóri og áburðarmeistari á skíðagöngumót innan lands og utan enda stóð honum líklega enginn framar í þeirri oft flóknu kúnst að smyrja gönguskíði rétt.  Þegar aðstæður voru snúnar, til dæmis gamall snjór og nýr í bland, snjókoma við frostmark eða færið í brautinni breytilegt, þá var okkar maður í essinu sínu og átti það til að draga fram fágæta áburði úr sínum stóru og oft yfirfullu áburðartöskum. Það var einstök gæfa fyrir ungt skíðagöngufólk að fá að njóta aðstoðar Kitta í þessum efnum.

Kitti á skráðar 42 Fossavatnsgöngur og hafa einungis fimm menn gengið hana oftar. Enginn hefur þó unnið gönguna oftar, eða 12 sinnum, og eru þá ekki teknir með sigrar í aldursflokkum sem voru miklu fleiri. Þessar 42 göngur eru þó sennilega vanmat. Þannig gekk hann gönguna árið 1956, þá aðeins 12 ára gamall, gegn öllum aldursreglum. Tími hans var af þessum sökum ekki skráður og því telst sú ganga ekki með í opinberum bókum göngunnar, né aðrar þær göngur sem hann gekk undir aldri.

Kitti gekk á skíðum daglega þegar færi gafst, og oft tvisvar á dag, og kom þar sér vel að lengi var hann ökukennari og gat stjórnað vinnutímanum að nokkru sjálfur. Þegar menn horfðu úr bænum uppi á dal á kvöldin og sáu brautaljósin kveikt, þá sögðu þeir alltaf „jæja, Kitti er farinn á skíði“. Hann gekk á skíðum lengri fram eftir aldri og eins lengi og hann gat, en að lokum fór sjónin helst að trufla hann og þurfti hann þá að fækka skíðaferðunum.

Hann fór ítarlega yfir skíðaferil sinn í Skíðablaðinu árið 2008 sem hægt er að lesa á vef Skíðafélags Ísfirðinga. Í öðru viðtali, frá árinu 2001 sagði hann meðal annars: „Ég held að allir hafi gott af því að æfa gönguskíði eða íþróttir yfirleitt. Menn verða að prófa að verða almennilega þreyttir. Það skiptir miklu máli í lífinu að kunna að gera eitthvað eftir að maður er orðinn þreyttur, sama hvort það er á líkamlega eða andlega sviðinu. Það er eitt af því sem maður lærir af því að ganga á skíðum.“

Í gær fóru fram 25 km Fossavatnsskautið og styttri göngur ætlaðar börnum. Á morgun, 20. apríl fer Fossavatnsagangan fram, 89 árum eftir að hún var fyrst gengin. Það er táknrænt að útför Kitta fari fram daginn þar á milli.

Takk fyrir alla kílómetrana.

Stjórnir Skíðafélags Ísfirðinga og Fossavatnsgöngunnar.

Í minningu Kitta Muggs hefur fjölskylda hans stofnað styktarsjóð ísfiskra skíðabarna sem verður í umsjón stjórnar SFÍ, kt 590269-2479 , bnr. 0556-14-628

More news

Allar myndir til sölu

Allar myndir til sölu

Ágúst Atlason og fjölskylda hans eru hirðljósmyndarar Fossavatnsgöngunnar. Allar myndirnar sem þau tóku eru til á vefnum Gusti.is og þar er hægt að kaupa myndirnar í hárri upplausn.

lesa meira
Norskur sigur í Fossavatnsgöngunni 2024

Norskur sigur í Fossavatnsgöngunni 2024

Norðmennirnir Anikken Gjerde Alnæs og Magnus Waaler sigruðu í 50 km Fossavatnsgöngunni 2024. Um 300 keppendur tóku þátt í 50 km göngunni og tókust á við krefjandi aðstæður í morgun en það blés hressilega á brautinni auk þess sem veðurguðirnir sendu reglulega létta...

lesa meira