Úr gagnagrunni Fossavatnsgöngunnar: grein í Skíðablaðinu 2024

Í skíðablaðinu 2024 (sem hægt er að lesa á Snjor.is ásamt öllum eldri Skíðablöðum) er grein með ýmsum upplýsingum um gagnagrunn Fossavatnsgöngunnar.

Greinin hefst á bls. 13, en er birt hér til gamans, lítið eitt aukin. Auk þess hefur verið skilið betur í sundur milli alnafna, en Sigurður Jónsson (Búbbi prentari) var í prentaðri útgáfu skíðablaðsins skráður fyrir tveimur göngum of mikið.

Úr gagnagrunni Fossavatnsgöngunnar

Fossavatnsgangan var fyrst gengin 1935 og fagnar því 90 ára afmæli á næsta ári. Alla tíð hefur leiðin legið með einhverjum hætti frá Fossavatni fyrir ofan Engidal og yfir á Seljalandsdal, þó tíðafar og ýmsir þættir hafi haft á það áhrif sem ekki verða rakin hér.

Um nokkuð skeið hef ég unnið að því að taka saman úrslit úr göngum fyrri ára í einn heildstæðan gagnagrunn. Bæði hafa úrslit verið óbirt, eða birt í misaðgengilegum excel-skjölum sem erfitt er að átta sig almennilega á. Með heildstæðum gagnagrunni er hægt að sjá með einföldum hætti öll úrslit hvers einstaklings, og taka saman ýmsar tölfræðilegar upplýsingar um fjölda og fleira. Til þess að svo megi verða þarf að samræma framsetningu, tryggja að tímamælingar séu véllæsilegar, að nöfn þátttakenda séu skráð eins í gegnum tíðina (sem er sérstaklega mikil vinna fyrir þátttakendur með millinöfn), að alnafnar séu aðgreindir og margt fleira.

Þó ég hafi sett grunninn saman og það verið ærin vinna, byggir hún á vinnu margra annarra. Fyrsta er þar að nefna sjálfboðaliða sem sinnt hafa tímatöku og skráningu upplýsinga ár hvert. Guðmundur Sveinsson var fyrstu árin dyggur í því. Guðmundur Ágústsson gerði mikla gangskör í þessum málum á níunda og tíunda áratugnum. Sonur hans Hlynur lagði hönd á plóg, Guðmundur Rafn Kristjánsson (Muggur) einnig, Einar Ágúst Yngvason og Heimir Hansson. Elías Oddsson tæknivæddi tímatöku og var þar prímusmótor um árabil þar til Birgir Þór Halldórsson tók við og hefur hann sinnt því síðustu ár. Frágangur og samræming, innsláttur og forritun hefur verið í mínum höndum.

Heimildir eru sumar að finna á sérstökum blöðum sem fundist hafa, stundum hafa úrslit verið birt í dagblöðum og á öðrum vettvangi ýmiskonar.

Samhliða skráningu á úrslitum hef ég tekið saman upplýsingar um göngur þar sem það er aðgengilegt, bæði um tíðafar, dagsetningar, staðsetningu og lengd brauta og svo framvegis. Þær upplýsingar eru talsvert brotakenndar þó.

Þrátt fyrir þetta eru úrslit glötuð fyrir tvö ár og virðast litlar líkur á að úr því verði bætt úr þessu. Þó er vitað að Kitti Muggs sigraði þær göngur—þetta var á gullaldartímabili hans—og hefur honum verið útdeilt 100 mínútna heildartíma í þeim göngum.

Dagsetning Fossavatnsgöngunnar

Fyrsta sem gaman er að skoða er hvenær árs gengið er. Framan af var lítil regla á dagsetningunum og var gengið frá því snemma í mars allt aftur til loka maí. Regla komst á dagsetningar í kringum 1980 og var þá miðað við mánaðarmótin apríl-maí. Síðar hefur verið vikið frá því af ýmsum ástæðum og er dagsetning ákvörðuð nú út frá eftirfarandi reglu: Fossavatnsgangan er haldin síðasta laugardag vetrar nema þegar hann ber upp á páskahelgi, en þá er gangan laugardaginn fyrir pálmasunnudag.

Fjöldi skráðra tíma

Næst er að skoða fjölda þátttakenda. Á myndinni sést hvernig fjöldinn tekur kipp fyrst í kringum 1970, rís hægt og rólega upp úr aldamótum en springur svo út á árunum 2014 og eftir það. Faraldursárið 2020 féll gangan niður og hefur ekki náð fyrri fjölda síðan.

Flest þátttökuár

Þó Fossavatnsgangan sé í sjálfu sér keppni um að koma fyrst í mark, hefur markmið hennar þó jafnan verið víðtækara en það; að stuðla að iðkun skíðagöngu, búa til markmið fyrir iðkendur, stefna fólki saman og njóta útiveru á eigin forsendum, svo fátt eitt sé nefnt. Það er því við hæfi að tiltaka fyrst þá einstaklinga sem oftast hafa tekið þátt, óháð fjölda sigra.

Hér er topp 20 listi yfir þá sem hafa tekið þátt oftast og gengið flesta kílómetra í göngunni. Gangi þátttakandi tvær göngur eða fleiri sama ár gildir einungis sú lengsta, og eru göngur reiknaðar með óháð vegalengd.

NafnVega­lengdFjöldi gangaFyrsta gangaSíðasta ganga
Oddur Pétursson931 km49 19552012
Gunnar Pétursson926 km46 19552012
Halldór Margeirsson1091 km46 19682021
Árni Aðalbjarnarson1018 km45 19702023
Sigurður Jónsson875 km44 19382007
Kristján Rafn Guðmundsson910 km42 19622014
Einar Ágúst Yngvason1233 km39 19782023
Elías Sveinsson846 km39 19672012
Óskar Kárason792 km38 19712019
Sigurður Gunnarsson753 km36 19672023
Stígur Stígsson704 km34 19582015
Arnór Stígsson621 km32 19582005
Konráð Eggertsson626 km30 19762023
Sigurður Sigurðsson679 km30 19552017
Gunnlaugur Jónasson (1930)524 km29 19702018
Þröstur Jóhannesson642 km28 19742010
Guðjón H. Höskuldsson521 km27 19672012
Ragnar Bragason1080 km27 19932023
Pétur Pétursson546 km26 19362014
Einar Ólafsson750 km25 19782023

Topp 20: Konur

Hér er svo topp 20 listi yfir konur sem hafa tekið þátt oftast og gengið flesta kílómetra í göngunni. Gangi þátttakandi tvær göngur eða fleiri sama ár gildir einungis sú lengsta.

NafnVega­lengdFjöldi gangaFyrsta gangaSíðasta ganga
Rannveig Halldórsdóttir927 km24 19972023
Auður Yngvadóttir530 km22 19802019
Jóna Lind Kristjánsdóttir554 km19 19982023
Rósa Þorsteinsdóttir345 km17 19962014
Silja Rán Guðmundsdóttir213 km17 19972015
Guðbjörg Rós Sigurðardóttir439 km16 19912018
Katrín Sif Kristbjörnsdóttir364 km16 19982023
Stella Hjaltadóttir592 km16 19852019
Jóhanna Oddsdóttir295 km15 20022018
Kristín Hálfdánsdóttir270 km15 19952018
Arna Kristbjörnsdóttir221 km14 20022019
Emelía Þórðardóttir377 km14 20002015
Katrín Árnadóttir (1983)318 km14 19942019
Oddný Njálsdóttir146 km14 19932012
Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir123 km13 19942018
Gerður Steinþórsdóttir295 km12 20072021
Ingibjörg Elín Magnúsdóttir291 km12 19992023
Nanný Arna Guðmundsdóttir307 km12 20002023
Guðfinna Hreiðarsdóttir339 km11 20022018
Guðný Katrín Kristinsdóttir228 km11 20102023

Flestir sigrar

Þegar við teljum fjölda sigra er hægt að gera það með ýmsum hætti. Bæði hefur verið keppt í aldursflokkum og mismunandi vegalengdum, einkum í seinni tíð. Ef við einskorðum útreikningana við lengstu vegalengd hvers árs (að Næturfossavatninu frátöldu), og sleppum því að flokka eftir aldri, kemur Kristján Rafn Guðmundsson efstur á blaði með tólf sigra. Næstur er Einar Ólafsson með sjö sigra, en hann á talsvert fleiri gull eftir að hafa unnið 20 km gönguna fyrstu árin sem 50 km gangan var í gengin.

FjöldiNafnÁr
12Kristján Rafn Guðmundsson1962, 1963, 1964, 1965, 1966, 1967, 1968, 1970, 1971, 1972, 1973 og 1974
7Einar Ólafsson1982, 1983, 1987, 1988, 1989, 1995, 1997
5Stella Hjaltadóttir1985, 1989, 1997, 1999, 2001
4Magnús Kristjánsson1935, 1936, 1937, 1938
4Oddur Pétursson1955, 1956, 1957, 1961
4Þröstur Jóhannesson1978, 1979, 1980, 1981
4Ólafur Th. Árnason2000, 2002, 2003, 2004
3Gísli Einar Árnason1992, 1994, 1996
3Auður Yngvadóttir1980, 1986, 1987

Besti meðalhraði

Eins og allir þátttakendur í Fossavatnsgöngunni geta sagt langar sögur um, eru aðstæður afar mismunandi milli ára. Veður og snjóalög hafa áhrif bæði á hvernig gangan vinnst, en einnig á það hvaða braut er hægt að troða. Af þessu hlýst að talsverður munur getur verið milli raunvegalengdar og uppsettrar vegalengdar. Í gamla daga var mat á vegalengd einnig frekar ónákvæm. Heildartími sigurvegara er því ekki sérstaklega góður mælikvarði á það hvernig gangan vinnst, og nær að taka meðalhraða. Vegalengd aftur til 2012 hef ég áætluð út frá meðaltali Strava-skráninga þátttakenda en fyrir þann tíma er gert ráð fyrir 50 km raunlengd. Samkvæmt hefð er meðalhraði skráður sem fjöldi mínútna per kílómeter.

Karlar með mesta meðalhraðann

NafnÁrRaunlengdTímiMeðalhraði
Ilya Chernousov201850 km02:13:59 2:41
Mathias Aas Rolid202346 km02:04:02 2:42
Jørgen Aukland200650 km*02:17:00 2:44
Gard Gjerdalen200650 km*02:17:02 2:44
Petter Soleng Skinstad202346 km02:06:42 2:45

* Raunlengd ekki þekkt og reiknað með 50 km.

Konur með mesta meðalhraðann

NafnÁrRaunlengdTímiMeðalhraði
Maria Gräfnings201850 km02:36:17 3:08
Nadja Kaelin202346 km02:26:15 3:11
Britta Johansson Norge201750 km02:41:03 3:13
Anouk Faivre Picon201850 km02:45:20 3:18
Selina Gasparin201850 km02:46:56 3:20


Fyrsta 50 km gangan var 2004. Samanburður aftar í tímann, fyrir upphaf 50 km göngunnar, er erfiður af ýmsum ástæðum. Raun-vegalengdir eru ónákvæmar. Göngurnar eru styttri og því mætti búast við hærri meðalhraða. En búnaður og aðstæður voru erfiðari. Þannig var fyrst véltroðin braut árið 1967, og framþróun í skíðum, ýtingatækni og ýmsu öðru hefur verið mikil þegar litið er til tæprar aldar.

Árið 1965, þegar Kitti Muggs var upp á sitt besta, var ekki byrjað að véltroða. Það ár stendur í skýrslu að gangan hafi hafist „í botni Engidals efst, síðan vanaleg leið yfir Galtarhrygg, markið neðan við Gullhól, um 17 km“. Tími Kitta var 1:03:36, sem gefur 3:44 mín/km.

Gagnagrunnurinn á netinu

Gagnagrunnurinn er á netinu og öllum opinn. Skemmtilegast er náttúrulega að fletta sjálfum sér upp. Einnig er þar valmöguleiki að finna helstu andstæðingana sína, sem eru þeir þátttakendur sem oftast hafa gengið sömu vegalengd sama ár. Áfram má búast við því að einhver pennaglöp eða villur séu í grunninum eða útreikningunum og eru allar ábendingar um það vel þegnar.