Úrslitagagnagrunnurinn Einar opnaður

Opnaður hefur verið gagnagrunnur með öllum úrslitum úr Fossavatnsgöngunni sem aðgengileg eru.

Rauntímaupplýsingar eru birtar á Timataka.net. Gagnagrunnurinn er ekki beintengdur tímatökukerfinu, svo úrslit koma ekki jafnóðum í grunninn heldur með nokkurra daga töf.

Hægt er að skoða úrslit fyrir hvern einstakling, sjá duglegasta skíðafólkið í gegnum tíðina, bæði mælt í fjölda ganga og fjölda kílómetra, hæsta meðalhraða í 50 km göngu og bera saman tvo andstæðinga.

Gagnagrunnurinn byggir á verkefni sem sinnt hefur verið í skorpum um talsvert skeið af mörgum skíðaáhugamönnum. Úrslit eru glötuð fyrir nokkur ár og í sumum tilvikum ekki alveg ljóst hvort gangan hafi farið fram. Nokkrum sinnum eru bara tiltæk úrslit úr verðlaunasætum, og stundum vantar fyrir styttri vegalengdirnar.

Reynt hefur verið eftir fremsta megni að sameina undir einu nafni mismunandi rithætti er mismunandi (t.d. þegar millinöfnum er stundum sleppt eða þau stytt). Einnig hefur á stöku stað verið greint á milli alnafna með fæðingarári.

Grunnurinn er byggður á vinnu Guðmundar heitins Ágústssonar. Guðmundur Rafn Kristjánsson, Hlynur Guðmundsson og Heimir Hansson héldu svo áfram að safna gögnum og sendu síðar verkið áfram til Einars Yngva, sem grunnurinn heitir eftir. Eiga þeir miklar þakkir skildar.

Birgir Þór Halldórsson hefur séð um tímatöku síðustu ár. Frágangur, samantekt og forritun er í höndum Gylfa Ólafssonar. Allar ábendingar eru vel þegnar.