Ísfirska fyrirtækið Tímataka.net sér um að taka tímann í keppnunum okkar. Úrslitin má nálgast í rauntíma en einnig er hægt að sjá hvernig keppendum miðar, þar á meðal áætlaðan lokatíma, á urslit.fossavatn.is.
Tímatökuflagan er á númerinu og sú hlið númersins sem flagan er á ætti að snúa fram og vera vel sýnileg þegar farið er yfir tímatökumotturnar. Mjög mikilvægt er að brjóta númerið ekki saman til að skemma ekki tímatökuflöguna.
Fljótandi start er í göngunum á laugardeginum en fyrsta hollið í ræsingu í hverri vegalengd verður með sama starttíma eða svo kallaðan „byssutíma“. Allir keppendur fá flögutíma sem er mældur frá því þátttakandi fer yfir tímatökumottuna í byrjun göngu.
Byssutíminn er sá tími sem gildir til úrslita í göngunni og því hvetjum við þátttakendur sem eru að keppa til sigurs að mæta í fyrsta ráshóp.
Millitímar eru teknir á drykkjarstöðvum í brautinni; á Búrfelli, Heiðinni og Nónvatni.
Flögutímann fá allir sem skrá farsímanúmerið sitt við skráningu sendan með sms skilaboðum stuttu eftir að þeir koma í mark.